Upphafið

Blindravinnustofan var stofnuð í októbermánuði árið 1941. Markmið hennar og tilgangur var þá að veita blindu fólki stöðuga atvinnu sem það gæti stundað sér til lífsviðurværis. Fram að því hafði margt blint fólk starfað á vinnustofu á vegum Blindravinafélags Íslands, en vinna þar var oft stöpul og vildi blint fólk sjálft ráða fyrir sér í atvinnumálum líkt og það vildi sjálft vera í forsvari fyrir réttindamálum sínum. Hópur blinds fólks hafði þá, tveimur árum áður fyrr, stofnað Blindrafélagið og Blindravinnustofan var þá, og hefur ætíð verið, í eigu Blindrafélagsins.

Fyrstu árin starfaði aðallega blint fólk á vinnustofunni, en þegar fram liður stundir fjölgaði sjónskertum starfsmönnum. Í dag starfar þar samhentur hópur fólks með skerta sjón eða enga auk þess sem margir starfsmenn hafa einhvers konar viðbótarfötlun eða eru að takast á við sjúkdóma.

Húsnæðið

Fyrstu tvö starfsárin var vinnustofan til húsa að Laugavegi 97, en árið 1943 fluttist hún í húsnæði að Grundarstíg 11 sem Blindrafélagið hafði þá nýlega fest kaup á. Árið 1961 var eldri álma húss Blindrafélagsins, að Hamrahlíð 17, tilbúið til notkunar og flutti vinnustofan þangað og er þar enn. Rúmum áratug síðar var nýrri álma Hamrahlíðar 17 tekin í notkun og þá jókst húsplássið enn meira.

Starfið

Til að byrja með voru helstu verkefnin framleiðsla og sala á burstum. Fyrstu starfsár vinnustofunnar var oft erfitt um aðföng þar sem síðari heimstyrjöldin var þá í algleymingi og erfitt að kaupa hráefni til burstagerðar frá öðrum löndum. Blindrafélagið brá þá á það ráð að kaupa trésmíðavél til þess að starfsmenn vinnustofunnar gætu sjálfir smíðað burstabök. Síðan drógu menn strá eða hár í bökin, í höndunum, og hnýttu og þannig urðu fyrstu burstar vinnustofunnar til. Stundum reyndist erfitt að flytja inn hráefni, strá, hár og annað sem til þurfti, og brugðu menn þá á það ráð að framleiða barnaleikföng úr tré og selja, einkum fyrir jólin.

Handídrátturinn var tímafrekur og á stundum erfið vinna en fljótlega eftir stofnun vinnustofunnar áttuðu menn sig á því að bæta mætti hag hennar og afköst verulega með því að kaupa vélar til burstaframleiðslunnar og fjárfestu í öflugri burstavél sem jók framleiðsluna verulega. Á þeim árum voru einkum framleiddir uppþvottaburstar, en einnig gólfskrúbbar, sópar og fleiri burstategundir.

Á áttunda áratugnum háði vinnustofan harða samkeppni við innflutning á burstum og brugðust menn við minnkandi sölu með því að efla framleiðslugetuna, bæði með frekari vélvæðingu og burstategundum var fjölgað. Handídráttur lagðist alfarið af árið 1985 og eftir það voru burstar eingöngu framleiddir í vélum.

Á níunda áratugnum voru enn keyptar afkastameiri og öflugri framleiðsluvélar og framleiðslan jókst auk þess sem hafinn var innflutningur á öðrum ræstiáhöldum.

Á árunum 1990 til 2000 rak vinnustofan öflugan innflutnings- og söludeild og flutti inn mikið magn af alls kyns ræstiáhöldum sem seld voru á almennum neytendamarkaði auk þess sem mikið af áhöldum voru seld til ýmissa fyrirtækja og stofnanna. Einkum voru þetta skúringamoppusett, rykmoppusett, hanskar, ræstivagnar og ýmislegt sem tengist ræstingu og þrifum.

Árið 2002 var allri bursta framleiðslu vinnustofunnar hætt þar sem kostnaður við framleiðsluna var of hár og verð því ekki samkeppnishæft við innflutta bursta.

Blindravinnustofan var, um áratugaskeið, eitt öflugasta bursta framleiðslufyrirtæki landsins og vörumerki hennar og framleiðsla er flestum landsmönnum kunn.

Í dag selur vinnustofan eingöngu innflutta bursta og önnur ræstiáhöld. Helstu viðskiptalönd vinnustofunnar eru Bretland, Svíþjóð, Þýskaland, Kína og Bangladesh.

Körfugerðin

Eitt af þeim verkefnum sem margir landsmenn þekkja vel til eru vöggurnar sem framleiddar voru og seldar hjá Blindravinnustofunni.

Árið 1970 stofnaði einn af félagsmönnum Blindrafélagsins körfugerðarverkstæði og fékk leigða aðstöðu í húsi Blindrafélagsins. Þegar hann féll frá, árið 1982, keypti Blindrafélagið körfugerðarverkstæðið og rak það til ársins 1995 að allri körfugerð á vegum félagsins var hætt.

Körfugerðarverkstæði Blindrafélagsins framleiddi m.a. barna- og dúkkuvöggur, körfur undir óhreina tauið, rusla körfur og tók að sér viðgerðir á körfum og húsgögnum úr tágum.

Blindravinafélag Íslands rak einnig körfugerð og seldi framleiðslu sína, barna og dúkkuvöggur, í Ingólfsstræti 16. Sú framleiðsla og sala stóð mun lengur eða fram yfir árið 2000. Þá rak annar af félagsmönnum Blindrafélagsins körfugerð þar sem hann fléttar og selur barna- og dúkkuvöggur og tekur einnig að sér viðgerðir á vöggum.

Reksturinn

Fyrstu þrjá áratugina var Blindravinnustofan rekin sem eins konar samvinnufélag innan Blindrafélagsins, en síðan tók félagið yfir rekstrinum á vinnustofunni og bætti við sem beinan lið í starfsemi sinni. Varð sú yfirtaka mikil hagsbót fyrir vinnustofuna og upp frá því voru starfsmenn hennar ekki háðir því fyrirkomulagi að fá laun í samræmi við rekstrarafkomu hennar. Árið 1996 var rekstrarformi vinnustofunnar breytt og hún gerð að einkahlutafélagi í eigu Blindrafélagsins. Þá varð sú breyting á yfirstjórn vinnustofunnar að stjórn Blindrafélagsins skipaði henni sérstaklega stjórn og ráðinn var framkvæmdarstjóri sem eingöngu var ætlað að stýra daglegum rekstri hennar, en fram að því hafði stjórn Blindrafélagsins farið með stjórn hennar.